Þegar eign er í einkasölu þá er bara einn fasteignasali að vinna með hana en þegar eign er í almennri sölu þá getur seljandi haft eignina á skrá á eins mörgum fasteignasölum og hann vill.
Ég persónulega tek ekki eignir í almenna sölu þar sem ég sé það ekki þjóna hagsmunum neins, ekki seljanda, ekki kaupanda og ekki fasteignasala. Þegar ég keypti mína fyrstu fasteign 1996 þá var varla komið internet og þá skipti máli að vera skráður á eins margar fasteignasölur og hægt var þar sem viðskiptavinir komu á fasteignasölurnar til að fá lista yfir þær eignir sem voru á skrá. Í dag er engin þörf á því. Fasteignasalar vinna mismunandi og með því að skrá eignina á margar fasteignasölur þá er eignin þín með mismunandi lýsingu, mismunandi myndir og fasteignasalar hafa mismunandi eftirfylgni.
Ef eignin er skráð í einkasölu þá er sami fasteignasali með alla þræðina. Hann veit hverjir hafa áhuga og getur látið aðra kaupendur vita ef það kemur tilboð. Ef eignin er skráð á margar stofur þá breytist fókusinn í það að loka tilboðinu fyrir sína kaupendur og í raun vera á undan öðrum fasteignasölum í að selja eignina. Margir kaupendur upplifa seljendur sem örvæntingarfulla ef þeir eru með eignina skráða á margar stofur og eru því líklegri til að bjóða lægra í eignina.
Ég mæli því alltaf með að hafa eignina í einkasölu og vanda valið á fasteignasalanum. Þú getur t.d. kíkt á google og skoðað umsagnir um fasteignasala. Skoðað heimasíður þeirra, skoðað samfélagsmiðlana, hvernig kynna þeir eignir og síðast en ekki síst fengið meðmæli frá vinum og vandamönnum sem eru nýbúnir að kaupa og selja fasteign. Þarna skiptir ekki síður máli að heyra hvernig fasteignasalinn sinnti kaupendum því þú vilt fasteignasala sem nennir að sinna kaupendum því án þeirra verður jú engin sala.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.iseða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is - Sími: 863 0402